Erlent

Kúabændur blása til mótmæla

BBI skrifar
Mynd/Stefán Karlsson
Kúabændur í löndum Evrópusambandsins hafa blásið til mótmæla að undanförnu vegna lækkandi mjólkurverðs á síðustu vikum. Frá þessu er sagt á vef Landssambands kúabænda.

Lækkunin orsakast af miklu framboði mjólkur í löndum Evrópu ásamt metframleiðslu í Nýja-Sjálandi. Á sama tíma og afurðaverðið hefur lækkað hefur verð á kjarnfóðri rokið upp og ýtt enn frekar undir tapið.

Kúabændur í Bretlandi hafa staðið fyrir mótmælum við stórmarkaði og verslanir í nokkrar vikur til að vekja neytendur til vitundar um ástandið. Nú hafa samtök kúabænda í Austurríki, Þýskalandi, Belgíu og Frakklandi tilkynnt að þau muni grípa til svipaðra aðgerða. Þó hefð fyrir mótmælum sé minni í Skandinavíu en sunnar í Evrópu hafa kúabændur í Svíþjóð staðið fyrir einhverjum mótmælum og eftir verðlækkun í gær virðist mótmælaandinn vera að rumska í brjóstum kollega þeirra í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×