Erlent

Allar skýrslur FBI um Marilyn Monroe eru horfnar

Allar skýrslur bandarísku alríkislögreglunnar FBI um leikkonuna Marilyn Monroe eru horfnar.  Það sama gildir um Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna en þar finnst hvorki tangur né tetur af skjölum FBI um Marilyn.

Það hefur oft leikið vafi á því hvort Marilyn framdi sjálfsmorð með of stórum skammti af svefnlyfjum eða hvort að Kennedy fjölskyldan hafi komið henni fyrir kattarnef. Talið er að Marilyn hafi átt í ástarsambandi við John F. Kennedy Bandaríkjaforseta og Robert Kennedy bróðir hans á þeim tíma þegar John var forseti og Robert var dómsmálaráðherra landsins.

Nú eru liðin 50 ár frá andláti Marilyn og í því tilefni fór AP fréttastofan fram á að fá aðgang að skýrslum FBI um leikkonuna í krafti upplýsingalöggjafar Bandaríkjanna. Þá var fréttastofunni tjáð að skýrslurnar væru horfnar.

Vitað er að FBI fylgdist náið með Marilyn Manroe þegar kvitturinn komst á kreik um ástarsamband hennar við John F. Kennedy. Raunar var leikkonan um tíma undir eftirliti FBI allan sólarhringinn skömmu fyrir andlát sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×