Erlent

Móðir Assange óttast að sonur sinn hljóti dauðarefsingu

BBI skrifar
Móðir Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, fullyrðir að málatilbúnaðurinn á hendur syni sínum séu pólitískar ofsóknir. Hún hefur áhyggjur af því að hann verði dæmdur til dauða ef hann verður framseldur til Bandaríkjanna. Hún hitti forseta Ekvador á miðvikudaginn, en Assange hefur sótt um pólitískt hæli í Ekvador.

Assange leitaði skjóls í sendiráði Ekvador í Bretlandi eftir að Hæstiréttur Bretlands komst að þeirri niðurstöðu að það bæri að framselja hann til Svíþjóðar vegna meintra kynferðisbrota þar í landi. Í sendiráði Ekvador geta yfirvöld í Bretlandi ekki haft hendur í hári hans svo hann er í vari sem stendur.

Móðir Assange óttast, eins og fleiri, að hann verði framseldur áfram til Bandaríkjanna vegna gruns um njósnir ef hann á annað borð kemur til Svíþjóðar. Í Bandaríkjunum á hann jafnvel yfir höfði sér ákærur um njósnastarfsemi vegna síðunnar WikiLeaks, en við henni liggur löng fangelsisrefsing eða jafnvel dauðarefsing.

„Það er hreinlega enginn vafi um að þetta eru pólitískar ofsóknir, af hálfu sænskra saksóknara og lögreglunnar, með hjálp ríkisstjórnarinnar," segir móðir Assange. Henni finnst klikkað að yfirvöld hyggist dæma Assange fyrir njósnir „fyrir það eitt að vinna starf rannsóknarblaðamanns, sem er að segja sannleikann um vald."

Henni finnst yfirvöld í Ekvador skilningsrík og segir þar starfa góða menn. Hún vonar að þeir geti bjargað syni sínum fyrir horn. Utanríkisráðherra Ekvador hefur gefið út að beiðni Assange verði svarað 12. ágúst næstkomandi, eftir Ólympíuleikana í London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×