Erlent

Beyoncé leiðir herferð fyrir mannúðarstarf

BBI skrifar
Beyoncé verður í broddi fylkingar í herferð sem Sameinuðu Þjóðirnar hófu í dag til að hvetja fólk til að vinna að velferð annarra. Á alþjóðlegum degi mannúðarstarfs, sem verður 19. ágúst, er vonast til að herferðin hafi náð til eins milljarðs manna.

Markmiðið er að hver og einn maður vinni eitt mannúðarverk á alþjóðadegi mannúðarstarfs. „Geri eitthvað eitt fyrir aðra manneskju. Ekkert er of smávægilegt," segir Beyoncé. Þannig verður dagurinn „tækifæri fyrir okkur öll til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar," segir hún.

Á heimasíðunni www.whd-iwashere.org getur hver og einn sagt frá góðverki sínu og vonast er til þess að einn milljarður manna taki þátt.

Minning þeirra sem hafa týnt lífi við mannúðarstörf verður sérstaklega heiðruð á deginum. Einnig verður reynt að vekja athygli á þörf á mannúðaraðstoð.

Beyoncé mun gefa út tónlistarmyndband við lagið I Was There á deginum. Myndbandið var tekið upp í höfuðstöðvum Allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna að viðstöddum áhorfendum. Forsmekkinn má sjá á tenglinum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×