Erlent

Hljóp að vígamanni með bitlausum hníf

Frá bænastund Síka í Wisconsin.
Frá bænastund Síka í Wisconsin. mynd/AFP
Stjórnandi bænahúss Síka í Wisconsin í Bandaríkjunum bjargaði lífi fjölda barna og kvenna þegar Wade Michael Page hóf skotárás á hofið.

Hinn sextíu og fimm ára gamli Sadwant Kaleka hljóp í átt að vígamanninum með bitlausum hníf sem notaður er í helgiathöfnum Síka. Kaleka reyndi að stinga Page. Á meðan gafst fólkinu færi á að forða sér út úr bænahofinu.

Wade skaut Kaleka tvisvar og lést hann af sárum sínum. Talið er að Wade hafi verið viðriðin samtökum hvítra kynþáttahatara.

Wade, sem er fyrrverandi hermaður, féll síðan í skotbardaga við lögreglu fyrir utan musterið en fjórir liggja slasaðir eftir árásina. Þar á meðal er einn lögreglumaður.

Málið hefur vakið mikinn óhug vestanhafs en þetta er önnur skotárásin á stuttum tíma. Nýlega skaut maður 12 manns til bana í úthverfi í Denver en hann réðist inn í kvikmyndahús þegar verið var að sýna nýju Batman myndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×