Erlent

Curiosity streymir myndum frá Mars

Hér má sjá hitaskjöld geimhylkisins sem flutti Curiosity til Mars. Myndin er tekin stuttu eftir að farið braut sér í gegnum gufuhvolf plánetunnar.
Hér má sjá hitaskjöld geimhylkisins sem flutti Curiosity til Mars. Myndin er tekin stuttu eftir að farið braut sér í gegnum gufuhvolf plánetunnar. mynd/AP
Fyrstu myndir frá snjalljeppanum Curiosity sem nú situr á yfirborði Mars hafa verið birtar. Um er að ræða 300 ljósmyndir sem sýna lendingu farsins í Gale-gígnum, nokkuð suður af miðbaug plánetunnar. Á næstu dögum mun Curiosity senda nákvæmari myndir af lendingarstað sínum.

Næstu ár mun Curiosity rýna í jarðveg Mars og leita að ummerkjum eftir líf. Þannig mun farið varpa ljósi á aðstæður á Mars fyrir fjórum milljörðum ára. Curiosity er rúmlega 900 kíló að þyngd og er hann margfalt stærri en fyrirrennarar sínir, þeir Spirit og Opportunity.

Curiosity lauk átta mánaða ferðalagi sínum um geiminn aðfaranótt mánudags. Mikil eftirvænting var meðal vísindamanna Geimferðastofnunar Bandaríkjanna þegar lendingarfasi farsins hófst. Það var síðan ákaft fagnað þegar tilkynnt var að sex hjól farsins hefðu snert yfirborð rauðu plánetunnar.

Farsæll endir á för Curiosity þykir mikill sigur fyrir stofnunina. Fallið var frá geimferðaáætlun hennar fyrir nokkrum mánuðum. Síðan þá hafa margir efast um tilgang hennar. Vera Curiosity á Mars mun þó vafalaust sefa einhverjar gagnrýnisraddir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×