Handbolti

Ingimundur: Þetta eru gífurleg vonbrigði

Mynd/Valli
Ingimundur Ingimundarson var nánast orðlaus framan af spjalli sínu við Eirík Stefán Ásgeirsson að loknu dramatísku tapi gegn Ungverjum í átta liða úrslitum handknattleikskeppninnar í dag.

„Ég er alveg tómur. Svona leikir eru þannig að maður gefur allt í þá, allt sem maður á. Maður reynir að draga sér orku alls staðar að til að nýta sér í leiknum. Þetta var auðvitað rússíbani fram og tilbaka í áttatíu mínútur. Þetta er erfitt og maður er að berjast við tilfinningar," sagði Ingimundur og ljóst að vonbrigðin voru mikil.

„Við vorum búnir að setja markið hátt og ætluðum lengra en þetta. Þetta eru gífurleg vonbrigði, gífurleg."

Ingimundur sagðist ekki vera sáttur við leik liðsins í dag.

„Nei, ég get ekki sagt það. Við náðum mörgum góðum stuttum rispum í leiknum en ekki þessari heild sem við höfum verið með í undanförnum leikjum. Svona er þetta bara. Ég veit ekki hvers vegna það var," sagði Ingimundur en bætti við að dómgæslan hefði ekki hjálpað þó svo þeim mætti ekki kenna um tapið.

Íslenska liðið elti það ungverska í venjulegum leiktíma. Liðið náði að minnka muninn og jafna en gekk erfiðlega að ganga á lagið.

„Það kostar gífurlega orku að komast inn í leikinn og missa hann frá sér. Komast aftur inn í hann og missa hann frá sér. Koma svo aftur… Þetta er svo rosalega sárt," sagði Ingimundur.

Guðmundur Guðmundssson, landliðsþjálfari, stýrði Íslendingum í síðasta skipti í dag.

„Gummi hefur gefið út að þetta yrði hans síðasta mót. Það hefur verið frábært að vera hluti af liðinu hans síðustu fjögur og hálft ár. Frábær þjálfari og ég hef notið hverrar mínútu undir hans stjórn. Sama með Óskar Bjarna og Gunnar. Þetta teymi hefur verið frábært," sagði Ingimundur sem dvaldi aðeins við aðstoðarmenn Guðmundar.

„Menn gleyma dálítið Óskari og Gunna. Þeir eru tölvunördarnir sem vinna baki brotnu dag og nótt. Tíminn hefur verið frábær og leiðinlegt að enda hann svona," sagði varnartröllið úr Breiðholtinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×