Enski boltinn

Liverpool fyrsta úrvalsdeildarfélagið sem tekur þátt í gleðigöngu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá göngunni árið 2010.
Frá göngunni árið 2010. Mynd / www.liverpoolpride.co.uk
Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool hefur tilkynnt að félagið verði þátttakandi í gleðigöngu samkynhneiðgra sem fram fer í borginni þann 4. ágúst.

Liverpool Echo greinir frá þessu en um er að ræða fyrsta skipti sem enskt úrvalsdeildarfélag tilkynnir opinberlega um þátttöku sína í gleðigöngu.

„Við hjá Liverpool höldum við áfram að sanna skuldbindingu okkar gagnvart gildum á borð við jafnrétti og mögulegri þátttöku allra innan félagsins. Í mörg ár höfum við tekið jákvæð skref í baráttu gegn fordómum í garð samkynhneigðra innan sem utan vallar," er haft eftir Ian Ayre framkvæmdastjóra félagsins í Liverpool Echo.

Ayre bætti því við að gleðigangan væri gleðiefni fyrir borgina.

„Gangan er frábær vettvangur til þess að draga að sér nærliggjandi samfélög og fólk víðsvegar að í landinu til að kynnast þeirri fjölbreyttu menningu sem okkar frábæra borg hefur upp á að bjóða."

Liverpool leggur til fána með merki félagsins í göngunni og munu starfsmenn félagsins og leikmenn kvennaliðsins fara fyrir félaginu ásamt stuðningsmönnum þess. Þá mun félagið gefa ýmsan varning sem notaður verður í fjáröflunarskyni fyrir gönguna.

Ekki hefur verið greint frá því hvort einhverjir leikmenn karlaliðs félagsins ætli sér að taka þátt í göngunni.

Áhugasamir geta kynnt sér gönguna nánar á heimasíðu hennar með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×