Viðskipti innlent

Segir lífskjör fólks verri en Seðlabankinn vill viðurkenna

Karen Kjartansdóttir skrifar
Heiðar Guðjónsson hagfræðingur.
Heiðar Guðjónsson hagfræðingur.
Laun á Íslandi eru svipuð því sem þau voru fyrir um tveimur áratugum. Þetta fullyrðir hagfræðingur sem segir sérstakt að Seðlabankinn haldi því fram að kjör fólks séu svipuð og þau voru árið 2006.

Laun þyrftu að hækka um meira en fjórðung til þess eins að þau færu að líkjast því sem var árið 2000. Þetta segir Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur, í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins í dag.

Heiðar segir laun hér á landi hafa hrunið og staðan sé mun verri en peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands heldur fram en nefndin segir laun lík því sem var fyrir sex árum eða árið 2006. Segir Heiðar að eina leiðin til að fá þá niðurstöðu sé ef sleppt er að leiðrétta fyrir verðbólgu á Íslandi. Notar hann orðið peningaglýja um þá aðferð.

Evrur í dag séu til að mynda 30 prósent verðminni en þær voru fyrir tólf árum, verðbólga á krónum nemi hins vegar 130 prósentum á sama tímabili.

Heiðar segir að laun mæld á föstu verðlagi, sem þýðir að leiðrétt er fyrir verðbólgu og miðað við alþjóðlegar myntir, sýni að laun Íslendinga séu svipuð því sem þau voru árið 1993 eða fyrir um tveimur áratugum síðan.

Greining Heiðars er auk þess á allt annan veg en greining Pauls Krugmans, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sem hefur sagt Ísland vera á góðri leið með að verða fyrirmynd í endurreisn eftir fjármálahrun. Bandarísku stórblöðin New York Times og Wall Street Journal hafa líkt árangri Íslands við kraftaverk.

Þá hefur Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, skrifað að það sýni sig nú að jöfnunarstefna gagnvart kreppuáhrifunum er góð hagfræði, eins og kennt er í klassískum kenningum John M. Keynes. Það hafi verið einmitt líka verið lexían sem menn lærðu af kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Margir vilji hins vegar ekki beita úrræðum Keynes og séu fastir í frjálshyggjuúrræðum sem dýpkki kreppuna að óþörfu. Vísar Stefán svo í nýja bók Krugmans, End This Depression Now, þar sem fjallað er um máli.

Heiðar segir hins vegar í viðtali við Viðskiptablaðið að Íslendingar finni það líklega best á eigin skinni að Krugman hafi rangt fyrir sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×