Viðskipti innlent

Íslenskir neytendur munu finna fyrir uppskerubrestinum

BBI skrifar
Kornrækt á Íslandi
Kornrækt á Íslandi
Mikil verðhækkun á korni er fyrirsjáanleg á næstu vikum og mánuðum. Hún mun mjög fljótlega skila sér til almennings að mati Eggerts Jónassonar, innkaupastjóra Líflands og Kornax.

Korn- og mjöliðnaðurinn hefur orðið fyrir tveimur áföllum á síðustu mánuðum. Það fyrra var mikill uppskerubrestur á soijabaunum í Suður-Ameríku fyrir nokkrum mánuðum. Síðara áfallið er hitabylgja og verstu þurrkar í rúm fimmtíu ár á svonefndu kornbelti Bandaríkjanna þar sem er stærsta ræktarland maís- og soijabauna í heiminum.

Þessi uppskerubrestur í Bandaríkjunum mun hafa bein áhrif á flestalla matvælaframleiðslu enda eru Bandaríkin mjög stór framleiðandi á heimsmælikvarða. Því mega íslenskir neytendur búast við rísandi matvælaverði næstu vikur og sérstaklega í haust.

Hækkandi kornverð hefur vitanlega bein áhrif á kornvörur og því verður brauðmeti strax dýrara. En auk þess mun það hafa áhrif á íslenskar landbúnaðarafurðir og kjötvörur. „Það er ekki hægt að framleiða kjöt á Íslandi nema nota kjarnfóður," segir Eggert „Og við hjá Líflandi þurftum nýverið að hækka okkar fóður í verði og sjáum fram á frekari hækkanir í haust." Um leið og fóðurverð hækkar verða landbúnaðarafurðir eðlilega dýrari.

Ekki er nóg með að ástandið í Bandaríkjunum sé uggvænlegt því ástandið í Evrópu er líka að versna. Miklir þurrkar við Svartahaf og rigningar í Norður-Evrópu auka nú líkur á lakari uppskeru en gengur og gerist á meginlandinu. Uppskeran þar hefst eftir um hálfan mánuð og matvælaframleiðendur bíða milli vonar og ótta eftir framvindu mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×