Fótbolti

Umfjöllun: Spánn - Ítalía 4-0 | Spánn Evrópumeistari

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Nordicphotos/Getty
Spánn sigraði Ítalíu 4-0 í úrslitaleik Evrópumeistaramótsins í kvöld og varð þar með fyrsta þjóðin til að vinna tvö Evrópumeistaramót í röð. Spánn sýndi allar sínar bestu hliðar í leiknum og var 2-0 yfir í hálfleik.

Spánverjar hófu leikinn af miklum krafti og voru mjög beinskeyttir strax í byrjun. David Silva skoraði á 14. mínútu og áður en fyrri hálfleikur var allur hafði Jordi Alba bætt við marki.

Hafi Ítalía átt einhverja von hvarf hún þegar varamaðurinn Thiago Motta þurfti að fara meiddur af leikvelli þegar enn var um hálftími eftir af leiknum en þá höfðu Ítalir notað allar þrjár skiptingar sínar.

Fernando Torres og Juan Mata, leikmenn Chelsea á Englandi, gerðu út um leikinn með tveimur mörkum á fjögurra mínútna kafla þegar skammt var eftir og gulltryggðu sanngjarnan sigur.

Spánn skoraði tólf mörk og fékk á sig eitt í keppninni. Ítalía skoraði gegn Spáni í fyrstu umferð en eftir það hélt Casillas markinu hreinu. Ótrúlegir yfirburðir Spánar í mótinu fengust staðfestir með þessum stórsigri í úrslitaleiknum. Ljóst er að Spánn hefur á að skipa besta liði Evrópu aðra keppnina í röð. Liðið hefur nú unnið þrjú stórmót í röð.

88. mín. Chelsea félagarnir Torres og Mata að koma Spáni í 4-0. Torres sýndi ótrúlega óeigingirni að senda boltann á Mata sem var í betra færi en Mata var nýkominn inná sem varamaður.

84. mín.
Fernando Torres er fyrsti leikmaðurinn til að skora í tveimur úrslitaleikjum EM í röð. Hann var að gulltryggja sigur Spánar með laglegri afgreiðslu eftir sendingu Xavi sem var að leggja upp sitt annað mark í keppninni, bæði í úrslitaleiknum.

62. mín.
Enn syrtir í álinn hjá Ítölum því Thiago Motta þurfti að fara meiddur af leikvelli aðeins fimm mínútum eftir að hann kom inná sem varamaður en hann var þriðja og síðasta skiptin Ítalíu í leiknum. Ítalir verða því einum færri það sem eftir lifir leiks ef Motta getur ekki komið aftur inná.

48. mín.
Spánn byrjar seinni hálfleikinn af krafti og munaði minnstu að liðið kæmist í 3-0. Það bendir ekkert til þess að Spánn ætli að hanga á forystunni.

41. mín.
Spánverjar eru að undirstrika að þeir séu besta lið í heimi strax í fyrri hálfleik. Jordi Alba að skora annað mark Spánar sem eru að yfirspila Ítalíu. Xavi átti frábæra stungusendingu á bakvörðinn sem var kominn fremstur og kláraði færið eins og margreyndur framherji.

29. mín.
Fyrsta færi Ítala. Cassano með skot sem fer beint á Casillas.

25. mín Spánverjar enn sterkari aðilinn í leiknum og eru mjög beinskeyttir í sínum aðgerðum þó Ítalir séu að komast aðeins meira inn í leikinn.

15. mín Spánverjar komast sanngjarnt yfir. Cesc Fabregas lék upp að endalínunni hægra megin í vítateignu, sendi boltann fyrir markið þangað sem David Silva var mættur og stangaði boltann í markið. Frábært mark og Evrópumeistararnir komnir yfir.

5. mín Spánverjar miklu sterkari aðilinn fyrstu mínúturnar.

Spánverjar og Ítalir mættust í riðlakeppninni og skildu jöfn 1-1. Spánverjar eiga Evrópumeistaratitil að verja og gætu orðið fyrsta þjóðin til að verja titil sinn.

Hér fyrir neðan birtast sjálfkrafa allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.


Tengdar fréttir

Torres fær gullskóinn

Fernando Torres varð markakóngur Evrópumeistaramótsins í Póllandi og Úkraínu með þrjú mörk en hann skoraði þriðja mark Spánar gegn Ítalíu í kvöld eftir að hafa komið inná sem varamaður. Torres lagði auk þess fjórða markið upp sem Juan Mata skoraði.

Del Bosque: Ætlaði ekki að vera sigursæli þjálfarinn

Vicente Del Bosque, landsliðsþjálfari Spánverja, var hógværðin uppmáluð eins og venjulega í leikslok þrátt fyrir að Spánn hefði skráð sig á spjöld knattspyrnusögunnar á fleiri enn einn hátt.

Del Bosque jafnaði afrek Helmut Schön

Vicente del Bosque þjálfari Spánar er fyrsti þjálfarinn til að stýra liði til sigurs á Evrópumeistaramóti og Heimsmeistaramóti frá því að Helmut Schön afrekaði það með Vestur-Þýskalandi á EM 1972 og HM 1976.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×