Sport

Phelps keppir í átta greinum í Lundúnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Michael Phelps á möguleika á því að endurtaka afrek sitt frá Ólympíuleikunum í Peking fyrir fjórum árum síðan þegar hann vann gull í átta sundgreinum á einu og sömu leikunum.

Bandaríska úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana lauk í gær og á lokadeginum náði Phelps að tryggja sér sigur í 100 m flugsundi á tímanum 51,14 sekúndum - besta tíma ársins í heiminum.

Það var hans fjórði sigur á mótinu en hann hafði einnig borið sigur úr býtum í 200 m skriðsundi, 200 m fjórsundi og 200 m flugsundi. Hann varð annar í 400 m fjórsundi sem dugði til að tryggja honum þátttökurétt í greininni auk þess sem hann mun keppa í boðsundssveit Bandaríkjanna í þremur greinum.

Phelps hefur alls unnið fjórtán Ólympíugull á ferlinum og verður að teljast líklegt að hann muni bæta í safnið á leikunum í Lundúnum í sumar. Phelps á alls sextán verðlaun frá Ólympíuleikum. Metið er átján en sovéska fimleikakonan Larisa Latynina vann átján verðlaun á sínum ferli, þar af níu gull.

Það hefur þó gengið á ýmsu hjá Phelps á síðustu fjórum árum. Hann komst í heimsfréttirnar þegar myndir af honum að neyta kannabis birtust af honum á forsíðu dagblaðsins News of the World árið 2009.

Síðan þá hefur hann lagt mikið á sig til að ná fyrra formi og er hann allur að koma til, þó svo að árangurinn í 100 m flugsundinu sé um einni og hálfri sekúndu frá heimsmeti hans í greininni.

Missy Franklin varð sigursælasta konan á mótinu en hún mun keppa í sjö greinum á leikunum sem er met hjá bandrískri sundkonu. Gamla metið var sex greinar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×