Sport

Anton Sveinn bætist í hóp Ólympíufara | Ragnheiður á von

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anton Sveinn McKee fékk í hádeginu staðfestingu á því að honum hafi verið boðin þátttaka á Ólympíuleikunum í Lundúnum. Mun hann keppa í 1500 m skriðsundi á leikunum.

Anton Sveinn náði OST-lágmarki fyrir leikana og þurfti því að bíða eftir boði frá FINA, Alþjóðasundsambandinu, um að keppa í Lundúnum.

Jakob Jóhann Sveinsson fékk samskonar boð í gær og eru því íslenskir sundmenn á Ólympíuleikunum í Lundúnum orðnir sex talsins.

Hörður Oddfríðarson, formaður Sundsambands Íslands, sagði að enn væri mögulegt að Árni Már Árnason fengi boð um að keppa á leikunum.

Hann segir einnig að miðað við stöðuna eins og hún var í morgun þá á Ragnheiður Ragnarsdóttir skyndilega möguleika á að komast á leikana, en þeir voru í gær taldir afar litlir.

Allir þeir sem ná OQT-lágmörkum fyrir leikana eru öruggir inn en aðrir sem náðu OST-lágmörkum þurfa að bíða eftir boði FINA. Ef sundmenn þekkjast ekki boðið verður leitað til næstu á listanum þar til ákveðinn fjöldi sundmanna næst.

Hörður sagði að miðað við nýjustu stöðu er Ragnheiður önnur inn af þeim sem ekki hafa enn fengið boð.

Það eru því góðar líkur á því að enn muni bætast í hóp íslenskra Ólympíufara á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×