Innlent

Umboðsmaður skuldara: Ellefu prófmál fyrir héraðsdóm vegna lána

Búið er að velja ellefu prófmál þar sem mun reyna á tuttugu álitaefni sem þarf að fá úr skorið fyrir dómstólum vegna lána. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umboðsmanni skuldara.

Þar segir að fimm af þessum málum tengjast lögaðilum og sex einstaklingum. Þau mál sem ekki verða þingfest nú í júní verða þingfest strax að loknu réttarhléi. Þá hefur formlega verið óskað eftir flýtimeðferð hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og er vonast til að dóma verði kveðnir upp fyrir áramót.

Fjórir lögmenn, þeir Aðalsteinn E. Jónasson hrl. og Stefán A. Svensson hrl. fyrir hönd fjármálafyrirtækja og Dróma og Einar Hugi Bjarnason hrl. og Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl. fyrir hönd umboðsmanns skuldara, völdu þessi ellefu mál útfrá fyrrnefndri samantekt um álitaefni.

Einstaklingarnir hafa verið hvattir til að hafa samband við umboðsmann skuldara, sem mun veita þeim aðstoð eftir því sem við á og greiða lögmannskostnað. Lántakendum er í sjálfsvald sett hvaða lögmenn þeir kjósa sér og mun umboðsmaður skuldara ekki skipta sér að því vali. Þó er æskilegt að lögmennirnir hafi réttindi til að flytja mál fyrir Hæstarétti.

Ekki mun nást að þingfesta öll þessi mál fyrir réttarhlé, en kapp verður lagt á að það verði gert ekki síðar en strax eftir réttarhlé. Tryggja verður að lögmenn lántaka hafi nægan tíma til að undirbúa mál sinna umbjóðenda.

Þegar hefur verið haft samband við Héraðsdóm Reykjavíkur og Dómstólaráð og óskað eftir flýtimeðferð þessara ellefu mála. Einnig verður óskað eftir flýtimeðferð fyrir Hæstarétti, en vonast er til að mál þessi verði tilbúin til málflutnings fyrir Hæstarétti síðla hausts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×