Erlent

Forvirkar rannsóknaraðgerðir á Ólympíuleikunum

BBI skrifar
Lögreglan í Bretlandi hefur gefið það út að hún muni beita forvirkum rannsóknaraðgerðum komi upp grunur um fyrirhugaðar óeirðir eða glæpi í tengslum við Ólympíuleikana.

Chris Allison, aðstoðarlögreglustjóri, sagði að vasaþjófar, þjófar og klíkur sem hafa í hyggju að trufla leikana verði undir smásjá. „Ef okkur grunar að einhver ætli að brjóta af sér þá munum við grípa inní, auðvitað innan ramma laganna."

Þetta er svipuð aðferð og notuð er á Notting Hill hátíðinni í Bretlandi, tveggja daga kjötkveðjuhátið sem fram fer í ágúst á hverju ári. Ef lögreglu grunar að einhverjir hyggist fremja lögbrot og fyrir liggur að sá hinn sami hefur áður gerst sekur um glæpi þá grípur lögreglan til aðgerða áður en afbrotin eru framin.

Meðlimur í Occupy London hreyfingunni, Hannah Eiseman-Renyard, hefur viðrað áhyggjur af því að aðgerðir lögreglunnar muni beinast gegn mótmælendum sem hyggist nota Ólympíuleikana til að koma málstað sínum á framfæri. „Skilgreiningin á mótmælum virðist vera sú sama og á óeirðum og glæpum," bendir hún á.

Talsmenn lögreglunnar gera lítið úr þessum áhyggjum og segjast muni vernda rétt manna til mótmæla. „Ef einhver vill mótmæla verður hann að tala við okkur fyrirfram svo við getum virt rétt hans til friðsamra mótmæla."

Ólympíuleikarnir verða haldnir í London í ár og hefjast 27. júlí.

Fjallað er um málið í The Guardian í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×