Erlent

Herra Trololo látinn, 77 ára að aldri

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Rússneski söngvarinn Eduard Khil lést í Sankti Pétursborg í dag, 77 ára að aldri. Ferill Khils er rósum skreyttur, en það var túlkun hans á laginu I am so Happy til Finally be Back Home sem vakti hrifningu netverja — í kjölfarið varð Khil að stórstjörnu.

Það voru notendur myndbandasíðunnar YouTube sem uppgötvuðu lagið fyrir tveimur árum. Þá voru liðin 34 ár síðan það var tekið upp í Rússlandi.

Í upprunalegum texta lagsins er sögð dramatísk saga kúreka sem ríður um gresjurnar og dreymir um heimahagana. Í útgáfu Khils er þessa indælu frásögn þó hvergi að finna.

Söngvarinn og framleiðendur lagsins ákváðu að sleppa textanum. Þá var khil skipað tralla sig í gegnum lagið.

Yfirskrift myndbandsins á YouTube er Trololo. Titillinn vísar í jóðl Khils sem seinna meir vakti hrifningu netverja.

Á síðustu mánuðum hafði Khil barist við erfið veikindi. Í maí fékk hann heilablóðfall og hlaut í kjölfarið varanlegan heilaskaða.

Hægt er að sjá Khil flytja smellinn Trololo hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×