Erlent

Segja skilið við vopnahlé

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Frá mótmælum í Damaskus, höfuðborg Sýrlands.
Frá mótmælum í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. mynd/AFP
Þjóðarráð Sýrlands, helstu samtök stjórnarandstæðinga í landinu, hefur sagt skilið við hið máttlausa vopnahlé sem ríkt hefur í landinu síðustu vikur.

Talsmaður samtakanna, Sami al-Kurdi, sagði Reuters fréttaveitunni í dag að liðsmenn Þjóðarráðsins hefðu neyðst til að grípa til örþrifaráða þegar stjórnarhermenn gerðu árásir á óbreytta borgara.

Þar með hafi samtökin ákveðið að slíta vopnahléinu.

Að minnsta kosti 80 sýrlenskir hermenn létust í bardögum við uppreisnarmenn um helgina. Þá létust rúmlega 30 óbreyttir borgarar og andspyrnumenn í átökum við stjórnarhermenn í dag.

Vopnahléið var liður í friðaráætlun Kofi Annans, erindreka Sameinuðu Þjóðanna og Arabandalagsins í Sýrlandi. Þrátt fyrir að ríkisstjórn Bashar al- Assads, forseta Sýrlands, og leiðtogar stjórnarandstæðinga hafi samþykkt friðaráætlunina þá hafa átök haldið áfram í landinu og harnað verulega á síðustu vikum.

Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, sagði í dag að svívirðilegt athæfi yfirvalda í Sýrlandi síðustu mánuði gerðu það að verkum að ómögulegt sé að útkljá málin þar í landi á meðan al-Assad er við völd.

Þá sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna, aftur á móti að friðaráætlun Kofi Annans væri virk og að hún væri enn sem komið er til grundvallar friðarferlinu í Sýrlandi.

Hægt er að nálgast umfjöllun BBC um stöðu mála í Sýrlandi hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×