Erlent

Elsti jógakennari veraldar - 93 ára og með nýja mjöðm

Tao Porchon-Lynch
Tao Porchon-Lynch
Hin 93 ára gamla Tao Porchon-Lynch lætur hvorki háan aldur né mjaðmaskiptaaðgerð aftra sér frá því að stunda jóga. Fyrir stuttu var hún skráð í heimsmetabók Guinness fyrir að vera elsti jógakennari veraldar.

„Ég mun kenna jóga allt þangað til að ég dey," sagði Tao í samtali við Sky fréttastofuna. „Eftir það flýg ég bara á næstu plánetu og held áfram þar."

Tao hefur sýslað við ýmislegt í gegnum tíðina. Á sínum yngri árum var hún leikkona og fyrirsæta, þá þótti hún einnig efnilegur dansari. Það er hins vegar jóga sem hefur átt hug hennar allan síðustu 60 ár.

Tao hefur kennt jóga í hartnær fimmtíu ár.
„Ég algjörlega elska jóga," sagði Tao. „Það léttir lundina og fær mann til að brosa."

Þegar Tao þurfti að gangast undir mjaðmaskiptaaðgerð á síðasta ári sögðu læknar henni að jóga-ævintýrum hennar væri lokið. En Tao gaf lítið fyrir áhyggjur sérfræðinganna. „Það er enginn að fara að segja mér hvað ég get og get ekki gert — ég trúi því hvort eð er ekki."

Tao hefur kennt jóga í hartnær fimmtíu ár en æfingarstúdíó hennar er í Hartsdale í New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×