Erlent

Hollande kominn til Bandaríkjanna

Hollande kom til Bandaríkjanna í morgun.
Hollande kom til Bandaríkjanna í morgun. mynd/AP
Francois Hollande, sem sór embættiseið sem forseti Frakklands á þriðjudaginn, er kominn til Bandaríkjanna.

Hann mun funda með Barack Obama, Bandaríkjaforseta, í dag en hann mun einnig sitja fund leiðtoga átta helstu iðnríkja heimsins um helgina.

Talið er að Hollande og Obama muni ræða stríðið í Afganistan og skuldavanda evrusvæðisins.

Að mörgu leyti eru forsetarnir tveir skoðanabræður. Báðir telja að niðurskurðarkröfur séu ekki hentug lausn á efnahagsvanda Evrópu og vilja þeir frekar leggja áherslu á aukinn hagvöxt.

Hollande hefur þó ítrekað lýst því yfir að hann vilji frá franska hermenn heim frá Afganistan hið fyrsta.

Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstjórn Obama sagt að von sé að góðu samstarfi við stjórn Hollande um hin ýmsu málefni - þar á meðal Íran.

Dagskrá Hollande er þéttskipuð. Ásamt því að sitja fund G8 ríkjanna mun hann einnig sækja fund Atlantshafsbandalagsins í Chicago á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×