Erlent

Svona á að viðhalda ástarneistanum

Heilræði aldraðra hjóna í Bandaríkjunum til sonarsonar síns hafa vakið mikla athygli á veraldarvefnum. Í myndbandinu útlista hjónin hvernig eigi að viðhalda ástinni í löngum hjónaböndum.

Þau Selma og Kenny eru vægast sagt reynd á þessu sviði enda hafa þau verið saman í tæp 72 ár.

Sonarsonur þeirra, Michael Bender, gekk að eiga unnustu sína fyrir skömmu og ákváðu gömlu hjónin að gefa honum góð ráð af því tilefni.

Umræðupunktar hjónanna eru áhugaverðir og nytsamlegir. Þau segja að það sé afar mikilvægt að vera góð hvort við annað sem og að hafa ísskápinn ávallt fullan af mat.

Þá eru ferðalög einnig mikilvæg. „Á ferðalögum er samt sem áður mikilvægt að passa upp á eiginmanninn," bætir Selma við.

Á köflum rífast hjónin um mikilvægi heilræðanna. Undir lokin eru þau þó sammála um að rifrildi séu aldrei til góðs. Kenny tekst þó að skemma augnablikið með því að lýsa því yfir að þau séu í raun alltaf að rífast.

Selma og Kenny kyssast síðan innilega að lokum og skella síðan upp úr. „Það eru eflaust 25 ár síðan ég kyssti hann svona," segir Selma.

Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×