Erlent

Síðasti starfandi Cobra listmálarinn sýnir í Svendborg

Í myndlistarsal í Svendborg í Danmörku má nú sjá sýningu með verkum Pierra Alechinsky sem er síðasti starfandi myndlistarmaðurinn úr Cobra hópnum svokallaða.

Alechinsky er orðinn 85 ára gamall og er fæddur og uppalinn í Belgíu. Hann lætur engan bilbug á sér finna og flest verkin á sýningu hans í Svendborg eru frá síðustu árum.

Cobrahópurinn var stofnaður á kaffihúsi í París árið 1949 af myndlistarmönnum frá Danmörku, Belgíu og Hollandi. Nafnið er skammstöfun á borgarheitunum Copenhagen, Brussel og Amsterdam. Þessir listamenn fóru nýjar og óhefðbundnar leiðir í listsköpun sinni og studdust við jafnt abstrakt sem alþýðulist í sköpun sinni.

Einn íslenskur listmálari taldist til Cobra hópsins þótt hann vildi aldrei gangast við því sjálfur. Það var Savar Guðnason sem lést árið 1988. Svavar er einn fárra íslenskra myndlistamanna sem er vel þekktur utan landsteinanna. Verk hans eru í helstu söfnum Danmörku þar á meðal Statens Museum for Kunst sem og mörgum opinberum og einkasöfnum í Evrópu sem einkum sérhæfa sig í list Cobrahópsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×