Erlent

Sarkozy sakar Hollande um lygar

Mynd/AFP
Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti sakaði mótframbjóðanda sinn Francois Hollande ítrekað um lygar í sjónvarpskappræðum í gær. Kosningabaráttu tvímenninganna fer nú senn að ljúka þar sem Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudag.

Forsetaframbjóðendunum var ansi heitt í hamsi í gærkvöldi og ætti engan að undra. Sósíalistinn Hollande hafði fyrir kappræðurnar nokkurra prósenta forskot á Sarkozy í skoðanakönnunum og því var stundin mikilvæg fyrir forsetann.

Efnahagsmálin voru á meðal þess sem rætt var um og var Sarkozy fljótur að segja Hollande að éta ofan í sig sínar skoðanir og sakaði hann um lygar. Forsetinn gagnrýndi mótframbjóðanda sinn fyrir reynsluleysi og sagði efnahagsstefnu hans eiga eftir að drekkja Frakklandi í skuldum með tilheyrandi afleiðingum fyrir alla Evrópu. Þá sagðist Sarkozy hafa verið gagnrýndur um og of fyrir efnahagsörðugleikana sem Frakkar standa nú frammi fyrir og að mörgu öðru væri um að kenna. Þá greip Hollande tækifærið og sagði forsetann njóta þess að vera í hlutverki fórnarlambsins.

Hollande skaut föstum skotum á skattastefnu Sarkozys og sagði hana hylla hina ríku. Þá lagði hann áherslu á samheldni og notaði slagorð sitt „að leiða þjóðina saman" ítrekað til að draga fram hversu ólíkir frambjóðendurnir væru.

Mikið hefur verið spáð í spilin eftir kappræðurnar, þar á meðal hvernig mennirnir tveir báru sig. Sarkozy hallaði sér fram á borð og var í þeirri stöðu mest allan tímann á meðan Hollande virtist frekar afslappaður bæði í framkomu og tali og á tímapunkti virtist hann meira að segja geyspa. Eldmóður Sarkozys gæti orðið honum til góðs á sunnudag, en það er ekki alls kosta víst því gagnrýnendur hafa haft unun að því að gagnrýna persónuleika forsetans og vilja meina að hann sé of harðskeyttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×