Erlent

Hungrað kattardýr reyndi að gæða sér á litlum dreng

Hungruð ljónynja í dýragarðinum í Oregon í Bandaríkjunum reyndi að gæða sér á ungum dreng fyrr í vikunni. Kattardýrið reyndi eftir mesta megni að klófesta piltinn en öryggisglerið reyndist dýrinu ofjarl.

Hugsanlega hefur það verið klæðaburður piltsins sem vakti áhuga ljónynjunnar Kya. Drengurinn var í röndóttri peysu og minnti á lítinn sebrahest.

Pilturinn sýnir Kyu litla athygli er hún klórar, bítur og lemur í glerið. Hún mátar jafnvel skoltinn við höfuð drengsins.

Fjölskylda piltsins myndaði atvikið en upptökuna má sjá hér fyrir ofan. Myndbandið birtist á vefsíðunni YouTube í gær og hefur nú þegar verið horft á það rúmlega 10 þúsund sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×