Erlent

Húsmóðir fann loftstein sem er milljóna virði

Fólk flykkist nú til smábæjarins Lotus í El Dorado sýslu í Kaliforníu í leit að loftsteinum. Enn sem komið er hefur aðeins heimavinnandi húsmóðir í bænum dottið í lukkupottinn.

Fólkið sem hér um ræðir kemur allsstaðar að úr heiminum í kjölfar þess að loftsteinaregn féll nýlega til jarðar í grennd við bæinn. Talið er að um tvö þúsund manns séu mættir til að leita að loftsteinum og hefur íbúatala Lotus því tvöfaldast á nokkrum dögum.

Það var hinsvegar einn bæjarbúa, hin heimavinnandi húsmóðir Brenda Salveson, sem datt í lukkupottinn þegar hún var í daglegri gönguferð sinni með son sinn og heimilishundinn. Þá fann hún loftstein sem var 17 grömm að þyngd eða aðeins stærri en venjulegur sykurmoli.

Steinn er talinn vera á milli fjögurra og sex milljarða ára gamall. Brenda hefur þegar fengið tilboð upp á 20.000 dollara eða um 2,5 milljón kr. fyrir steininn. Brenda er þó ekki á því að selja steininn sem hún segir vera gjöf frá himnum.

Einn annar loftsteinn hefur fundist á svæðinu en hann var aðeins eitt gramm að þyngd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×