Erlent

Fjölskylda keypti 150 ára gamla kirkju og flytur brátt inn í hana

Sænsk fjölskylda hefur keypt ríflega 150 ára gamla kirkju og hyggst brátt flytja inn í hana.

Um er að ræða Örja kirkjuna í Landskrona en hún var tekin úr notkun árið 2004 og hefur raunar staðið auð síðan 1996. Fjölskyldan fékk kirkjuna fyrir eina sænska krónu en á það ber að líta að nauðsynlegar endurbætur á henni voru á sínum tíma taldar kosta um 17 milljónir sænskra króna eða yfir 300 milljónir króna.

Í fréttum í sænskum fjölmiðlum kemur fram að kirkjugarðurinn fylgi ekki með í kaupunum né heldur kirkjuklukkurnar, orgelið eða skírnarfonturinn.Hvað kirkjugarðinn varðar eru þar aðeins 20 grafir svo ekki er búist við miklum truflunum af umferð um hann í framtíðinni.

Sveitarstjórnin í Landskrona er hæstánægð með kaupin á kirkjunni. Annars hefði sveitarfélagið þurft að leggja í ærinn kostnað við að rífa hana og fjarlægja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×