Erlent

Kínverjar skjóta gervitunglum á sporbraut um jörðu

Frá geimskotinu í nótt.
Frá geimskotinu í nótt. mynd/CN
Geimferðastofnun Kína skaut tveimur gervitunglum á sporbraut um jörðu í nótt. Þannig eru yfirvöld í landinu komin skrefinu nær því að fullklára hnattrænt staðsetningarkerfi sitt.

Kerfið er kallað Beidou (ísl. Áttaviti) og var formlega tekið í notkun í desember á síðasta ári. Þá voru Kínverjar aðeins með 13 gervitungl á sporbraut um plánetuna og náði kerfið því aðeins til Kína.

Til þess að Beidou-kerfið verði hnattrænt þurfa Kínverjar að vera með 35 gervitungl á sporbraut um jörðu. Þeir vonast til að ná því takmarki árið 2020.

Beidou svipar mjög til GPS-staðsetningarkerfisins og munu notendur þess geta fengið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu sína á jarðkringlunni.

Gervitunglunum var skotið á loft frá Xichang skotpallinum í Sichuan héraði í suðvesturhluta Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×