Erlent

IKEA gefur viðskiptavinum myndavél

Sænski húsgagnaframleiðandinn IKEA hefur opinberað vistvæna myndavél sem fyrirtækið mun gefa viðskiptavinum sínum. Myndavélin er nær eingöngu gerð úr pappa.

Hægt er að taka 40 ljósmyndir með myndavélinni. Myndavélin fer síðan í ruslið ásamt öðrum endurvinnanlegum úrgangi.

Myndavélin er hluti af herferð fyrirtækisins þar sem viðskiptavinir eru hvattir til að taka ljósmyndir af IKEA húsgögnum sínum og birta á vefsíðu fyrirtækisins. Myndavélin verður gefin viðskiptavinum í völdum verslunum IKEA víðsvegar um heim.

Myndavélin er kölluð Knappa og er knúinn af tveimur AA rafhlöðum. Hægt er að tengja Knappa við tölvu í gegnum USB tengi.

Það var sænski vöruhönnuðurinn Jesper Kouthoofd sem á heiðurinn af myndavélinni.

Talsmaður IKEA segir að fyrirtækið muni ekki hefja fjöldaframleiðslu á ljósmyndabúnaði. Þvert á móti sé Knappa myndavélin aðeins hugsuð sem liður í auglýsingaherferð fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×