Erlent

Opna gröf mafíuforingja í Vatikaninu vegna hvarfs 15 ára stúlku

Yfirvöld á Ítalíu munu opna gröf mafíuforingja í Vatkaninu í Róm í næsta mánuði til að kanna hvort þar sé einnig að finna lík 15 ára gamallar stúlku sem hvarf árið 1983.

Um er að ræða gröf mafíuforingjans Enrico de Pedis, betur þekktur sem Renatino, en hann var foringi Magaliani mafíunnar í Róm þar til hann var myrtur árið 1990. Lengi hefur verið talið að í gröf hans í Vatikaninu sé einnig að finna lík hinnar 15 ára gömlu Emanuelu Orlandi sem hvarf árið 1983 en hún var frænka starfsmanns í Vatikaninu á þeim tíma.

Dómsmál hefur lengi verið rekið fyrir ítölskum dómstólum um leyfi yfirvalda til að opna gröf Renatino. Loks var fallist á að gröfin yrði opnuð og að kista Renatino yrði í framhaldinu flutt í annan kirkjugarð.

Í fréttum evrópskra fjölmiðla kemur fram að hið dularfyllsta við málið í heild er af hverju Renatino er grafinn í Vatikaninu. Slíkur heiður er aðeins ætlaður háttsetnum prestum kaþólsku kirkjunnar. Vatikanið hefur ekki gefið svör við þessu en Magaliani fjölskyldan segir að Vatikanið hafi skuldað henni töluvert fé á þessum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×