Erlent

Hver á ekki heima á þessari mynd?

Margaret situr lengst til hægri í neðri röð.
Margaret situr lengst til hægri í neðri röð. mynd/AP
Umhverfisráðherra Svíþjóðar fékk óvæntan gest þegar hún hélt matarboð fyrr í vikunni. Nokkrir ráðamenn í Svíþjóð fengu boð en svo virðist sem að boðskort fyrrverandi landbúnaðarráðherra landsins hafi ekki borist réttum aðila.

Hin 67 ára gamla Margaret Winberg, sem býr í Sundbyberg, rétt fyrir utan Stokkhólm, fékk boðskortið sem stílað var á nöfnu hennar. Margaret er á eftirlaunum og hefur að eigin sögn lítinn áhuga á umhverfismálum en þau átti einmitt að ræða í boðinu.

Margaret var í skýjunum þegar boðskortið frá Lenu Ek, umhverfisráðherra, kom í gegnum lúguna. Hún tók kvöldið frá og fór að íhuga í hverju hún ætti að fara.

Loks kom að kvöldinu og Margaret mætti með boðskortið í hönd. Hún heilsaði mörgum af helstu sérfræðingum veraldar í umhverfismálum og skemmti sér konunglega.

„Það var mikið af áhugaverðu fólki þarna," sagði Margaret. „Þar á meðal þessi Blix," en þar vísaði Margaret til Dr. Hans Blix, fyrrverandi yfirmann vopnaeftirlits Sameinuðu Þjóðanna.

Talsmaður Lenu Ek sagði að ráðherrann hefði hlegið mikið að atvikinu. Margaret var tekið með opnum örmum og fékk hún meðal annars að sitja fyrir á mynd með diplómötunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×