Erlent

Tupac enn á ný kominn á vinsældarlista

Frá Coachella hátíðinni.
Frá Coachella hátíðinni. mynd/AFP
mynd/AFP
Rapparinn Tupac Shakur er enn á ný kominn á vinsældarlista vestanhafs. Hann steig á svið á Coachella tónlistarhátíðinni fyrr í þessum mánuði, þrátt fyrir að hafa verið látinn í rúmlega 15 ár.

Með hjálp heilmyndartækni tryllti Tupac tónlistarunnendur á Coachella hátíðinni, 16. apríl síðastliðinn. Hann byrjaði á því að flytja lagið „Heil Mary." Því næst steig fyrrverandi samstarfsmaður hans, Snoop Dogg, á sviðið og fluttu félagarnir smellinn „2 Of Amerikaz Most Wanted" við mikinn fögnuð hátíðargesta.

Það var tónlistarframleiðandinn Dr. Dre sem skipulagði uppákomuna og hyggst hann nú fara með Tupac heitinn á tónleikaferðalag um Bandaríkin.

Plötur rapparans hafa nú gengið í endurnýjun lífdaga. Safnplata hans er nú í 129. sæti á Billboard listanum í Bandaríkjunum og hafa vinsældir hennar aukist um 571% síðan Tupac steig á stokk á Coachella.

Þá hafa nokkur lög eftir kappann einnig notið mikilla vinsælda síðustu vikurnar. Þar á meðal er lagið „California Love" sem Tupac hefur ekki flutt nýlega en því hefur verið niðurhalað um 11 þúsund sinnum síðan 16. apríl.

Snoop Dogg og Dr. Dre eiga því von á myndarlegri ávísun þegar höfundarlaun verða greidd en þeir sömdu „2 Of Amerikaz Most Wanted" og „California Love" með Tupac.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×