Erlent

Varað við flóðum í Bretlandi

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
Bresk yfirvöld hafa varað við hugsanlegum flóðum í landinu vegna mikillar úrkomu en sérlega blautt og vindasamt verður á Bretlandseyjum næstu daga.

Breska veðurstofan áætlar að úrkoma næturinnar hafi verið um fjörutíu og fjórir millimetrar í suðurhluta Englands og útlit er fyrir að dropar muni falla um allt land í dag. Búist er við að vindhraðinn fari upp í allt að 30 metra á sekúndu, en sérstaklega vindasamt verður í suðvestri. Tré gætu rifnað upp með rótum og valdið truflunum á samgöngum.

Flóðviðvörun hefur verið gefin út fyrir nánast öll svæði á Englandi sem og Wales en síðastliðin vika hefur verið sú blautasta þar síðan í desember. Þrátt fyrir að einhverjir séu ekki sáttir við ástandið fagna aðrir, því á mörgum svæðunum hafa þurrkar leikið íbúa grátt.

Bretar verða líklega margir hverjir í hlífðarfatnaði með regnhlífina á lofti næstu daga því spáin gerir ráð fyrir áframhaldandi rigningu. Og þrátt fyrir að maí sé að ganga í garð gætu nokkur snjókorn fallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×