Erlent

Karzai segir upplýsingaöflun hafa brugðist í aðdraganda árásar

Hamid Karzai ásamt Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins
Hamid Karzai ásamt Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins
Talið er að hryðjuverkasamtökin Haqqani hafi staðið að baki árásum á opinberar byggingar og stofnanir í Kabúl, höfuðborg Afganistan, á sunnudaginn. Forseti landsins segir að brestur í upplýsingaöflun NATO hafi leitt til árásanna.

Árásin stóð yfir í tæpar 18 klukkustundir. Vígamennirnir samhæfðu árásir sínar en þær áttu sér stað víðsvegar um landið - þó aðallega í Kabúl þar sem fjöldi opinberra bygginga urðu fyrir árásum, þar á meðal voru sendiráð Bandaríkjanna, Þýskalands og Bretlands sem og höfuðstöðvar NATO í Kabúl.

Talið er að 51 hafi látist í árásunum - flestir þeirra í Kabúl.

Hamid Karzai, forseti Afganistan, sagði í dag að árásirnar hafi verið tengdar brestum í upplýsingaöflun, bæði hjá afganska hernum sem og NATO.

Karzai tjáði sig í fyrsta sinn um árásirnar í dag. Hann hóf ávarp sitt á því að lofa öryggissveitum afganska hersins. Hann sagði að hermennirnir hefðu sannað ágæti sitt og að þeir væru vel færir um að vernda landið.

„Við brugðumst í upplýsingaöflun okkar og njósnum," sagði Karzai. „En hið sama má segja um NATO. Þetta verður að rannsaka."

Þrír vígamenn voru handsamaðir í kjölfar árásanna. Samkvæmt yfirvöldum í Afganistan hafa þeir játað stuðning við Haqqani hryðjuverkasamtökin en þau er talin tengjast al-Qaeda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×