Innlent

Taka þarf sjávarútvegsfrumvörpin til gagngerrar skoðunar

Bæjarráð Hornafjarðar hefur samþykkti umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og frumvarp til laga um veiðigjöld en þar eru gerðar verulegar athugasemdir við frumvörpin og einstakar greinar þeirra. Í tilkynningu bæjarráðs segir að frumvarp til laga um stjórn fiskveiða þurfi að taka til gagngerrar skoðunar og að lækka þurfi veiðigjöld verulega. Þá segir að óbreytt lami það fjárfestingu í sjávarútvegi, kæfi nýsköpun og framþróun greinarinnar og þar með þær byggðir sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á sjávarútvegi.

„Bæjarráð Hornafjarðar hefur ítrekað lagt áherslu á að leita beri sátta meðal þjóðarinnar og hagsmunaaðila um fiskveiðistjórnun, að breytingar á kerfinu skaði ekki sjávarbyggðir og byggja eigi nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi á niðurstöðu sáttanefndar. Því tekur bæjarráð Hornafjarðar undir meginmarkmið frumvarpanna um að skerpa á þeim skilningi að þjóðin sé eigandi auðlindarinnar, að nýtingarrétturinn sé tímabundinn með þeim fyrirvara að endurnýjun nýtingarsamninga sé skýr og að þjóðin njóti afraksturs af nýtingu auðlindarinnar í meira mæli en nú er þó bæjarráð Hornafjarðar telji nauðsynlegt að til komi veruleg lækkun á fyrirhuguðum veiðigjöldum eins og þau eru lögð upp í frumvarpinu."

Bæjarráð fékk KPMG ehf. til að meta áhrif frumvarpanna á Hornafjörð. Helstu niðurstöður eru að veiðigjöld munu nema samtals rúmum 1.300 m.kr. sem er sjöföldun á núverandi veiðigjaldi. Aflaheimildir munu dragast saman um 640 þorskígildistonn sem leiða til samdráttar í útsvarstekjum upp á 17 m.kr. frá því fiskveiðikerfi sem gilti fyrir gildistöku laga nr. 70/2011. Það mun kosta útgerðir um 200 m.kr. að leigja til sín heimildir af kvótaþingi til að verða jafnsettar og áður fyrir gildistöku laga nr. 70/2011. Að óbreyttu verða veiðigjöld á Höfn í Hornafirði alls 1,3 miljarður króna eða 779 þúsund krónur á hvern íbúa.

„Í ljósi niðurstaðna af vinnu KPMG og annarra gagna sem sveitarstjórnarmenn hafa kynnt sér hefur bæjarráð Hornafjarðar verulega þungar áhyggjur af þeim breytingum sem kynntar hafa verið á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ef málin verða afgreidd frá Alþingi samkvæmt fyrirliggjandi drögum, munu þau hafa veruleg neikvæð áhrif á grunnatvinnugrein sveitarfélagsins með tilheyrandi fækkun starfa, samdráttar í hinu staðbundna hagkerfi á Hornafirði og eykur því óvissu um framtíðarþróun samfélagsins," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×