Lífið

Mæðgur keppa í kraftlyftingum

Borghildur og dóttir hennar Arnhildur Anna Árndadó
Mynd/einkasafn
Nafn Borghildur Erlingsdóttir

Aldur 42 ára

Starf Forstjóri Einkaleyfastofunnar

Hjúskaparstaða Gift Viðari Lúðvíkssyni

Börn 4 börn á aldrinum 3-19 ára

Borghildur Erlingsdóttir kraftlyftingakona var kjörin Íþróttamaður Seltjarnarness 2011 núna í febrúar síðastliðnum og segir hún viðurkenninguna mikla fyrir sig og aðrar kraftlyftingakonur.



Hvenær kviknaði áhuginn fyrst á kraftlyftingum? Árið 2009 þegar ég byrjaði í einkaþjálfun hjá Ingimundi Björgvinssyni. Kraftlyftingar eru skemmtileg og krefjandi íþrótt þar sem alltaf er hægt að bæta sig auk þess sem þetta er besta leiðin til að vera í góðu formi.



Var auðvelt að ánetjast íþróttinni? Já, ég hlakka alltaf til að fara á æfingar og finnst ég ómöguleg ef ég missi úr æfingu. Það er líka svo gaman að setja sér ný markmið í íþróttinni og bæta sig.

Hafðirðu stundað aðrar íþróttir áður? Já, lengst af handbolta en ég hef einnig æft fimleika og ballett.

Hvernig var tilfinningin að keppa í fyrsta sinn? Fyrsta mótið sem ég tók þátt í var Breiðabliksmót í kraftlyftingum í júní 2010. Ég var ægilega stressuð og fór langt út fyrir þægindahringinn, en þetta var rosalega gaman þegar mótið var byrjað. Ég var líka ein að æfa á þeim tíma hjá þjálfaranum mínum og því var þetta langt frá því að vera sjálfsagt mál að fara að keppa í kraftlyftingum. Ég hafði ekki séð sjálfa mig fyrir mér með belti í kraftlyftingagalla og útötuð í magnesíumi.

Var ætlunin að smita dótturina? Það var alls ekki meðvituð ákvörðun í upphafi en ég er auðvitað mjög ánægð með að hafa náð að smita hana. Hún tók alveg sjálfstæða ákvörðun að byrja að æfa kraftlyftingar síðasta haust og hún kom mér skemmtilega á óvart þegar hún sagðist hafa skráð sig til keppni á Íslandsmeistaramótinu.

Hvað æfið þið oft í viku? Ég æfi þrisvar í viku með stelpum sem eru nú orðnar frábærar vinkonur mínar, þær Hildur Sesselja og Erla Kristín, en dóttir mín æfir mest sjálf. Hún er sjálfstæður nagli.

Hverjar eru áherslurnar? Það eru keppnisgreinar kraftlyftingaíþróttarinnar: réttstöðulyfta, hnébeygja og bekkpressa. Auk þess sem hollt mataræði og heilbrigt líferni er nauðsynlegur grunnur að góðum árangri.

Er íþróttin að verða vinsælli hjá konum að þínum mati? Já, það er alveg á hreinu. Við erum orðnar nokkuð margar sem erum í kraftlyftingadeild Gróttu og æfum íþróttina reglulega. Grótta á t.d. sex kvenkyns keppendur á Íslandsmeistaramótinu um næstu helgi af tólf kvenkyns þátttakendum. Þetta er frábær íþrótt fyrir konur á öllum aldri.

Sú ímynd loðir oft og tíðum við íþróttina að hana stundi stórar konur? Hafðir þú þær hugmyndir í byrjun? Já, það er nú málið, en það er bara alls ekki þannig. Ef maður er á heilbrigðu mataræði þá er þetta besta íþróttin til að halda sér í toppformi. Maður fitnar ekki af kraftlyftingum og blæs ekki út af vöðvamassa þó svo maður sé að lyfta þungu. Við mæðgurnar höfum báðar grennst um mörg kíló eftir að við byrjuðum að stunda kraftlyftingar. Þetta er að mínu mati besta íþrótt í heimi til að fá flatan maga og kúlurass.

Hvernig er að deila þessu áhugamáli með dótturinni? Það er frábært. Þetta tengir okkur óneitanlega enn betur. Við hvetjum hvor aðra og eðli máls samkvæmt eru kraftlyftingar vinsælt umræðuefni við matarborðið.

Hvar fer mótið fram? Íslandsmeistaramótið í kraftlyftingum verður haldið í íþróttahúsinu í Njarðvík laugardaginn 24. mars nk. Fyrri umferð mótsins hefst kl. 11.00. Þá keppa konur og karlar í léttari þyngdarflokkum. Seinni umferð hefst kl. 14.30 þar sem karlar í þyngri þyngdarflokkum keppa. Verðlaunaafhending er í lokin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.