Viðskipti innlent

365 og Síminn undirrita samkomulag um Fjölvarpið

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, og Ari Edwald, forstjóri 365.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, og Ari Edwald, forstjóri 365.
Forstjórar Símans og 365 miðla skrifuðu í dag undir samkomulag sem gerir 365 miðlum kleift að dreifa öllu sjónvarpsefni félagsins um kerfi Símans. Til þessa hefur verið samkomulag í gildi um dreifingu, Stöðvar 2, Stöðvar 2 extra, Stöðvar 2 bíó og Sportstöðva Stöðvar 2, en Fjölvarp Stöðvar 2 hefur verið undanskilið.

Með þessu eru Stöð 2 og Síminn að auka með sér samstarf um dreifingu á sjónvarpsefni. Frá og með 1. mars geta allir þeir sem eru með myndlykla frá Símanum keypt áskrift að erlendum sjónvarpsstöðvum sem Stöð 2 endurvarpar undir vörumerkinu Stöð 2 Fjölvarp.

Þetta þýðir að nú geta áskrifendur Stöðvar 2 með myndlykil frá Símanum loksins nýtt sér afsláttarkjör sín til að nálgast erlendar sjónvarpsstöðvar á betra verði en þeim hefur áður staðið til boða, með allt frá 18% til 30% afslætti frá grunnverði.

Á Stöð 2 Fjölvarpi eru á boðstólum 50 fjölbreyttar og vinsælar erlendar sjónvarpsstöðvar. Þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um er að ræða fréttir, fróðleikur, menningarefni, bíómyndir, skemmtiefni eða barnaefni. Alls eru fimm pakkar í boði, sérsniðnir að ólíkum þörfum og áhugasviðum áskrifenda.

„Fyrir áskrifendur Stöðvar 2 og systurstöðva markar þessi samningur tímamót því að nú getum við loks þjónað þeim sem nýta dreifikerfi Símans um alla þá sjónvarpsþjónustu sem að við bjóðum upp á. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga og eftirspurn eftir fjölvarpi okkar enda er verðstefna okkar að bjóða viðskiptavinum okkar hærri afslátt eftir því sem að þeir kaupa fleiri vörur frá okkur. Núna býðst á annan tug þúsunda áskrifenda Stöðvar 2 á dreifikerfi Símans aðgangur að Fjölvarpi okkar á mun hagstæðari kjörum en þeim hefur áður boðist. Sparnaður þeirra sem færa áskriftina til 365 miðla getur numið tugum þúsunda á ári hverju," segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla.

„Það er fagnaðarefni að með undirritun samninga í dag eykst vöruframboð á dreifikerfi Símans svo um munar og viðskiptavinir Símans hafa fullt val um við hvaða efnisveitu þeir skipta. Dagurinn markar einnig tímamót að því leyti að 365 miðlar hafa fullan aðgang að sjónvarpsdreifikerfi Símans sem eflir enn frekar samkeppni á sjónvarpsmarkaði," segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans.

Frekari upplýsingar er að finna á stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×