Innlent

Segist hafa kynnt hugmyndir um minnkun bankakerfisins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson bar vitni í Landsdómi í dag.
Tryggvi Þór Herbertsson bar vitni í Landsdómi í dag. mynd/ gva.
Tryggvi Þór Herbertsson, sem var efnahagsráðgjafi Geirs Haarde, var með víðtækar hugmyndir um sameiningar í bankakerfinu í ágúst 2008 til þess að minnka efnahagsreikning bankanna og draga úr kostnaði. Fyrir Landsdómi í dag sagðist Tryggvi hafa kynnt hugmyndirnar fyrir Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þá þegar.

„Forsætisráðherra bað mig um að tala við alla bankastjórnendur og eigendur og reyna að festa hönd á hvernig hægt væri að minnka þetta kerfi," sagði Tryggvi í vitnastúku. Hann hafi því unnið hugmynd með fullri vitneskju og stuðningi ráðherrans.

Sú hugmynd fól meðal annars í sér sameiningu Glitnis og Landsbankans. Öll norræn starfsemi myndi flytjast í FIH bankann, sem var í eigum Kaupþings, og það yrði reynt að selja eins mikið af eigum og hægt væri. „Jafnframt tillaga um að ríkið gæfi út evruskuldabréf og þessi bréf færð bönkunum. Í staðinn fengi ríkið öll íbúðabréf með afföllum og þau færð inn í Íbúðalánasjóð," sagði Tryggvi. Hann segist hafa rætt þessa hugmynd við fulltrúa allra bankanna. Fyrirstaða hafi verið á meðal aðaleiganda Glitnis og aðaleigandi Landsbankans vildi ekki fara þessa leið á þeim tíma.

„Það hefur komið mér á óvart hvað menn hafa gert lítið úr þessari miklu viðleitni sem var af hendi forsætyisráðuneytisins til þess að sameinast um aðgerðir til þess að bankakerfið yrði sterkara, kostnaðarminna og hægara yrði um að selja eignir," sagði Tryggvi. Undir vissum kringumstæðum hefði verið hægt að minnka kerfið á þennan hátt að mati Tryggva.

„Við trúðum því að þetta væri allavega tilboð sem væri þess virði að gera og við hefðum tæpast gert það nema við hefðum trúað því að þetta væri etitthvað sem hefði skilað árangri," sagði Tryggvi.

Þessi orð Tryggva stangast á við framburð Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Glitnis, og Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, sem segja að forsætisráðuneytið hafi ekki haft frumkvæði að hugmyndum um að minnka bankakerfið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×