Lífið

Lætur hjartað stjórna ferðinni

Margrét Blöndal nýtur þess að vera með fjölskyldunni og fylgja hjartanu.
Margrét Blöndal nýtur þess að vera með fjölskyldunni og fylgja hjartanu. mynd/ragnheiður arngrímsdóttir
„Mín líkamsrækt felst aðallega í því að anda niður fyrir rifbein og vera með hugann á sama stað og líkamann. Ég fer út að ganga, læt eftir mér að tárast yfir fallegri vetrarbirtu og elda með hjartanu," segir Margrét Blöndal fjölmiðlakona spurð hvernig hún eflir sjálfa sig og eigin vellíðan.

„Reyndar geri ég flest með hjartanu því það hentar mér betur en að láta heilann stjórna. Ég tók mataræðið mitt í gegn fyrir tveimur árum og fór að hlaupa. Ég hélt mig á þeirri braut í rúmt ár en svo fór að fjara undan fyrirheitunum. Nú er ég hins vegar lögð af stað aftur, borða þann mat sem er góður fyrir mig og hlakka til að reima á mig hlaupaskóna í vor," segir Margrét.

„Ég á auðvelt með að vera ein með sjálfri mér en nýt þess sannarlega líka að vera með minni dásamlegu fjölskyldu og vinum sem ég þakka fyrir oft á dag. Ég nýt þess að vera til og geri reglulega lista yfir það sem er gott í lífi mínu og hverju ég vil breyta. Sem betur fer er það yfirleitt algjörlega í mínum höndum að stytta breytingalistann, þó það vefjist stundum fyrir mér að hefjast handa."

„Ég var svo heppin að fá Mátt athyglinnar, nýju bókina hans Guðna Gunnarssonar, að gjöf og nú er ég lögð af stað í spennandi sjö vikna ferð með dásamlegri frænku minni og ég veit að það verður skemmtilegt ferðalag," segir Margrét.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.