Skoðun

Var þá hefnt á Alþingi ...

Birna Þórðardóttir skrifar
Í fásinninu hér áður og fyrr var sérstök íþrótt að hefna þess í héraði sem hallast hafði á Alþingi, dundaði margur sér við það svo jafnvel dauðum var stefnt og argaþrasið flutt til konungs í Köben, ef um allt þraut innanlands.

Nú er allt viðsnúið í því sem öðru og virðast menn nú hefna á Alþingi þess sem hallast í héraði.

Það var nöturlegt að fylgjast með umræðu og ekki síður atkvæðagreiðslu á Alþingi föstudaginn 20. jan. sl. um frávísunartillögu á tillögu Bjarna Benediktssonar sem fella vill niður ákæru á hendur Geir H. Haarde - skrítið!

Ekki það að ég sé sérlega hlynnt frávísunartillögum, en í málflutningi manna - ekki síst þeirra er nærri mér standa pólitískt - sem studdu frávísunartillöguna þótti mér sem að baki lægi ákveðin hefnd.

Þau sem kjörin voru á þing til þess að upplýsa, fletta ofan af, skapa gegnsæi og svo framvegis og svo framvegis, er þetta allt kjaftæði eitt og húmbúg - er það svo, að þegar á hólminn er komið sé það stoltið sem ræður - ekki síst hið særða stolt? Er það gamla góða egóið sem tekur völdin?

Mér hefur aldrei þótt stórmannlegt að skýla sér á bakvið aumingjaskap annarra, hvað þá aumingjagang kratanna í Samfylkingunni sem ekki þorðu að gangast við eigin ábyrgð og ákæra eigið fólk fyrir mistök í starfi, ekki síst fyrrum flokksformann. Nóg um það. En að standa upp og styðja í raun þau öfl er komu okkur á kaldan klaka er mér óskiljanlegt.

Annað er með ráðherrann sem flaug heim til að greiða atkvæði og mögulega hindra með því að vera kallaður fyrir sem vitni, komi ekki til þess að réttað verði yfir Geir. Það eru fleiri sem trúlega kæmi til greina að kalla fyrir sem vitni - verði réttað. Ekki er ég saksóknari og veit ekki hvað saksóknari ætlar sér. En verði þessi atkvæðagreiðsla til þess að hindra - að því er orðið gæti - að upplýsingar berist almenningi - og þá á ég við raunverulegar upplýsingar, ekki fimbulfamb fléttusmiða í anda forseta - þá er illa komið fyrir þeim er fóru með fullar hendur fagurra loforða inn á þing.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×