Erlent

Dönsk fegurðardrottning í mál vegna hálkuslyss

Fyrrum dönsk fegurðardrottning, Line Kruuse Nielsen, hefur höfðað mál gegn norska bænum Sandefjord vegna skaða sem hún hlaut þar í desember árið 2008 þegar hún féll á svelli við torg bæjarins er hún var á leið á líkamsræktarstöð.

Line var kjörin ungfrú Danmörk árið 2007 og var að vinna fyrir danskt fyrirtæki ári síðar í Sandefjord þegar slysið átti sér stað. Line hefur ekkert getað unnið eftir slysið vegna taugaskaða og þrálátra verkja í mjöðm og hnakka.

Line telur að bæjarfélagið beri ábyrgð á skaða sínum þar sem torgið hafði ekki verið saltað þrátt fyrir að það væri glerhált.

Í umfjöllun danskra fjölmiðla um málið kemur fram að samkvæmt norskum lögum ber bæjarfélögum þar í landi að sjá um að salta torg og opinber svæði innan sinna marka af þau eru hál vegna ísingar. Það er hinsvegar ekki kveðið á um hve oft eigi að gera slíkt.

Lögmaður Sandefjord er ósammála Line og segir að það snjói á veturna í Noregi og því kunni hálka að myndast. Ekki sé hægt að krefjast þess að bæjarfélagið sé stöðugt að salta götur sínar og torg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×