Erlent

Danir eru hæstánægðir með Margréti Þórhildi drottningu sína

Ný könnun sýnir að Danir eru hæstánægðir með Margréti Þórhildi drottningu sína og telja að hún hafi staðið sig með afbrigðum vel sem æðsti þjóðhöfðingi landsins.

Könnun þessi var gerð í tilefni þess að 40 ára krýningarafmæli Margrétar Þórhildar er framundan. Raunar verður haldið upp á það með pomp og prakt þann 15. janúar eða á sunnudaginn kemur.

Þennan dag árið 1972 tók Margrét Þórhildur, eða Daisy eins og Danir kalla hana oftast, við embætti sínu eftir andlát föður hennar Friðriks níunda Danakonungs.

Það var Gallup sem gerði könnunin fyrir Berlingske Tidende. Þar voru Danir beðinir að gefa drottningu sinni einkunn á skalanum einn til fimm. Að meðaltali fékk Margrét Þórhildur 4,3 í einkunn.

Þetta kemur Johannes Andersen lektor í samfélagsfræðum við háskólann í Álaborg ekki á óvart. Johannes segir að drottningin sé fyrst og fremst góð fyrirmynd fyrir Dani og hún sé verðugur fulltrúi þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Könnunin leiddi í ljós að yfir 90% Dana eru sammála því mati lektorsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×