Erlent

Aðaljárnbrautarstöðin í Kaupmannahöfn að drukkna í hlandi

Aðaljárnbrautarstöðin í Kaupmannahöfn er að drukkna í hlandi. Þetta vandamál kom upp þegar farið var að rukka fyrir afnotin af salernum stöðvarinnar.

Aðaljárnbrautarstöðin hefur raunar aldrei ilmað eins og rósir nema síður sé en nú yfirgnæfi hlandfýlan allt. Í umfjöllun blaðsins metroXpress um málið segir að frá 1. desember s.l. hafi fólk verið rukkað um 5 krónur danskar eða ríflega 100 krónur fyrir afnot af salernunum.

Þetta þykir Dönum sem leið eiga um stöðina alltof hátt verð og pissa þeir því hvar sem þeir geta utan og innan stöðvarinnar í staðinn. Hlandmagnið er orðið það mikið að hland er farið að leka inn á ýmsa veitingastaði stöðvarinnar.

Áður en gjaldið var tekið upp notuðu um 2.000 manns sér salerni stöðvarinnar að jafnaði á hverjum degi. Kokkur á einum veitingastaðnum segir í samtali við metroXpress að þetta vandamál sé orðið hræðilegt eftir að byrjað var að rukka inn á salernin. Mörg dæmi séu um að menn pissi fyrir utan veitingastaðina á stöðinni og öryggisverðir þurfi að hafa afskipti af fjölda fólks á hverjum degi þar sem það er að pissa inn á stöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×