Erlent

Minnsta kosti þrír látnir eftir að skemmtiferðaskip strandaði

Skemmtiferðaskipið Giglio.
Skemmtiferðaskipið Giglio. Mynd / AP
Þrír eru látnir og fjórtán slasaðir eftir að skemmtiferðaskip strandaði rétt fyrir utan Ítalíu í gærkvöldi. Þrjátíu metra löng rifa kom á skrokk skipsins með þeim afleiðingum að sjór fór að flæða inn í skipið. Ekki er ljóst hvað olli slysinu.

Skipið sem var með yfir fjögur þúsund farþega innanborðs strandaði skammt frá eyjunni Giglio fyrir utan Ítalíu með fyrrgreindum afleiðingum. Farþegar sem voru að snæða kvöldverð segja í samtölum við Ítalska fjölmiðla að hár hvellur hafi skyndilega heyrst og í kjölfarið hafi verið tilkynnt um vandræði í rafkerfi skipsins.

Skipið sem er hátt í þrjú hundruð metrar að lengd fór strax að taka inn á sig sjó og hallaði um tuttugu gráður. Farþegar stukku margir hverjir í sjóinn og reyndu að ná landi. Erfitt var að koma fólki í björgunarbáta þar sem þeir voru allir hægra megin í skipinu, eldra fólk átti sérstaklega erfitt uppdráttar að sögn sjónvarvotta.

Björgunarsveitarfólk er enn að kanna hvort fleiri séu um borð í skipinu og hafa gengið á milli káeta í leit að fólki, en 3200 farþegar voru um borð og þúsund manna áhöfn.

Fyrstu fréttir hermdu að átta manns hefðu látist en það hefur verið dregið til baka og er tala látinna nú þrír.

AFP fréttastofan hefur eftir yfirmanni strandgæslunnar að um þrjátíu metra löng rifa sé á skipinu en þó sé of snemmt að segja til um hvað nákvæmlega hefði gerst.

Tvö ár eru síðan skemmtiferðaskip frá sama skipafélagi, Costa Cruises, strandaði í Rauða hafinu skemmt frá egypsku borginni Sharm al sjeik, en þrír meðlimir áhafnarinnar létust í því slysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×