Erlent

Gífurlegt magn af timbri rak á land á Jótlandi

Gífurlegt magn af timbri hefur rekið á land í norðvesturhluta Jótlands. Yfirvöld leita nú leiða til að fjarlægja það.

Timbrið rak á land fyrir helgina í fjöruna við Lyngby Strand en það er af timburflutningaskipi sem missti nýlega ríflega 180 rúmmetra af timbri fyrir borð á hafinu út af Hanstholm.

Ekki er vitað hve mikið af þessu timbri en enn á reki undan ströndum Jótlands en í fjörunni er breiðan af því um hálfur annar kílómetri á lengd og um fimmtíu metrar á breidd. Fjaran lítur út eins og að eldspýtnastokki hafi verið hvolft á hana.

Það er bannað með lögum fyrir almenning að hirða rekavið í fjörum Danmerkur og því verða yfirvöld að fjarlægja þessa breiðu. Vandamálið er hinsvegar að fjaran er umlukin klettabelti og hæðum og því enginn vegur niður á hana.

Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að lögreglan á Jótlandi ætli að kanna möguleikana á að fjarlægja timbrið í dag.

Halda á maraþonhlaup um fjöruna í næsta mánuði. Ef ekki verður búið að fjarlægja timbrið er hætt við að hlaupið breytist í hindrunarhlaup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×