Erlent

Vonir um að fleiri finnist á lífi í Concordia fara dvínandi

Eins og sjá má á myndinni eru aðstæður í skipinu afar erfiðar.
Eins og sjá má á myndinni eru aðstæður í skipinu afar erfiðar. mynd/AP
Lítil von er á að fleiri finnist á lífi í skemmtiferðaskipinu Costa Concordia. Skipið strandaði við vesturströnd Ítalíu um helgina. Staðfest tala látinna komin upp í sex og er 16 enn saknað.

Leit eftirlifenda hélt áfram í dag. Afar slæmt veður var á slysstað og neyddust björgunarmenn til að gera hlé á aðgerðum sínum tímabundið. Skipið er afar óstöðugt og er hætta á að það losni af grynningunum og sökkvi í sæ.

Stjórnendur björgunaraðgerða tilkynntu seinni partinn að leit væri nú lokið á þeim svæðum skipsins sem ekki væru á kafi.

Skipstjóri skipsins, Francesco Schettino, hefur verið handtekinn og á yfir höfði sér ákæru fyrir manndráp af gáleysi. Talið er að Schettino hafi siglt skipinu af hefðbundinni leið svo að það hafnaði í grynningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×