Handbolti

Vignir: Maður hálfvorkennir Norðmönnunum

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Vignir reyndist heldur betur drjúgur í kvöld.
Vignir reyndist heldur betur drjúgur í kvöld. mynd/vilhelm
Vignir Svavarsson hefur komið sterkur inn í íslenska liðið á EM og hann skoraði ótrúlega dýrmætt mark úr hraðaupphlaupi undir lokin sem fór langleiðina með að tryggja íslenska liðinu sigur í leiknum gegn Noregi í kvöld.

"Það kom aldrei annað til greina en að skora. Maður reynir alltaf að skora úr færunum," sagði Vignir sposkur. "Ég væri væntanlega ekki hér að ræða leikinn ef ég hefði ekki skorað. Það var ljúft að sjá boltann í netinu."

Vignir var rétt eins og aðrir leikmenn landsliðsins enn að ná sér niður eftir lokamínútuna sem lengi verður í minnum höfð.

"Eins og þetta var nú gaman þá hálfvorkennir maður Norðmönnunum. Við vorum að upplifa þessa tilfinningu sem þeir þurfa nú að ganga í gegnum fyrir tveimur dögum. Eins og það var súrt að tapa gegn Króötunum þá er eins ljúft að vinna núna," sagði Vignir en hvað var í gangi með varnarleikinn sem var alls ekki nógu góður.

"Við vorum ekki að standa nógu þétt og ekki að gera það sem við töluðum um. Það vantaði líka meiri ákveðni. Það er yndislegt að vinna leik eftir að hafa ekki náð sínu besta fram. Það verður að viðurkennast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×