Handbolti

Dönsku dómararnir vissir | Þetta var aldrei víti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Per Olesen, annar dönsku dómaranna, í leiknum í gær.
Per Olesen, annar dönsku dómaranna, í leiknum í gær. Mynd/Vilhelm
Dönsku dómararnir Lars Ejby Pedersen og Per Olesen voru í viðtali við norska fjölmiðla eftir leikinn gegn Íslandi í gær og stóðu fast á sinni meiningu - þetta var ekki víti.

Á lokamínútu leiksins voru Norðmenn í sókn þegar þeir voru einu marki undir. Bjarte Myrhol tók skot að marki en vildi meina að á sér hafi verið brotið þegar að Vignir Svavarsson tók hann taki. En ekkert var dæmt, Björgvin Páll varði og Ísland tryggði sér tveggja marka sigur með marki á lokasekúndunni.

Norskir leikmenn og þjálfarinn Robert Hedin mótmæltu kröftuglega eftir leikinn. „Það er vissulega skiljanlegt en breytir því ekki að þeir gengu of langt," sagði Per Olesen við fréttasíðu VG í gær.

„Ég skil viðbrögðin þeirra enda mikilvægt augnablik, fjandinn hafi það. En þetta var of mikið - það verð ég að segja."

„Við verðum að sjá leikinn aftur á myndbandi en mín innri tilfinning segir að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Við gerum líka okkar mistök en við höfum heyrt í kollegum okkar í Danmörku sem segja að þetta var rétt."

„Eins og ég sá þetta þá var Myrhol með bakið í markið. Þetta var aldrei víti," sagði Ejby Pedersen ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×