Erlent

Jólagjöfin í ár í Ameríku var byssa

Bandaríska alríkislögreglan framkvæmdi bakgrunnskönnun á einni og hálfri milljón Bandaríkjamanna sem vildu kaupa skotvopn í nýliðnum desembermánuði.

Þetta er met í Bandaríkjunum en bakgrunnseftirlitið er nauðsynlegt til þess að fá að kaupa byssur í landinu og samkvæmt alríkislögreglunni komu fimmhundruð þúsund beiðnanna síðustu sex dagana fyrir jól. Þetta þykir sýna að byssur hafi aldrei verið vinsælli sem jólagjöf og fyrir þessi jólin. Raunar hefur sala á byssum verið að vaxa jafnt og þétt en síðasti nóvember var einnig metmánuður í byssusölu.

Raunar segja eftirlitsbeiðnirnar ekki alla söguna því á bakvið hvern og einn kaupanda geta verið fleiri en ein byssa. Sérfræðingar telja að aukinn byssuáhuga megi rekja til stöðnunar í bandarísku efnahagslífi og að einstaklingar hafi áhyggjur af aukinni glæpatíðni samfara henni. Önnur skýring er sú að byssuáhugamenn hafi áhyggjur af því að innan tíðar verði byssulöggjöfin í landinu hert til muna og því sé ekki seinna vænna en að koma sér upp góðu vopnabúri.

Ef litið er til ársins sem var að líða er áætlað að byssusala hafi aukist um 25 prósent frá árinu 2010 og salan á skotfærum hefur einnig aukis mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×