Erlent

Mikið óveður veldur usla í Danmörku

Mikið óveður hefur gengið yfir Danmörku í nótt og hefur öryggisþjónustan Falck þurft að sinna yfir 100 útköllum um allt landið.

Eignartjón er verulegt en meðal þess má nefna að 300 fermetra þak á fiskvinnsluhúsi í Læsö fauk af húsinu í heilu lagi. Þök hafa fokið af fleiri byggingum í veðrinu en vindstyrkurinn í því nam 35 til 40 metrum á sekúndu.

Þá hafa tré rifnað upp með rótum og oltið yfir vegi víða á Norður Jótlandi. Miklar truflanir eru á samgöngum og hefur öllum ferjuferðum í landinu verið aflýst. Veður þetta mun ganga niður nú eftir hádegið en veðurfræðingar segja það hið versta sem skollið hefur á landinu síðan árið 2005.

Áður en veðrið skall á Danmörku olli það miklum usla í Skotland en þar fórust tveir menn af völdum þess, um 70.000 heimili eru án rafmagns og miklar truflanir hafa orðið á samgöngum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×