Erlent

Tvíburar fæddust með fimm ára millibili

Floren og Reuben Blake.
Floren og Reuben Blake. mynd/AP
Breski pilturinn Reuben hóf skólagöngu sína í dag. Tvíburasystir hans þarf þó að bíða aðeins lengur, enda fæddist hún fimm árum á eftir Reuben.

Þó svo að fimm ár skilji systkinin að eru Reuben og Floren úr sama hópi fósturvísa. Foreldrar þeirra, Simon og Jody Blake, gátu ekki eignast afkvæmi með hefðbundnum hætti og hófu því frjósemismeðferð árið 2005.

Fimm fósturvísar voru framleiddir og var tveimur af þeim komið fyrir í Jody. Í kjölfarið kom Reuben í heiminn í desember árið 2006. Simon og Jody ákváðu að frysta fósturvísana sem eftir voru. Í mars á síðasta ári ákváðu þau síðan að reyna aftur.

Tveir af þremur fósturvísum lifðu ekki af afþíðinguna. Sá eini sem lifði af varð síðan að Floren en hún fæddist 16. nóvember á síðasta ári.

Blake fjölskyldanmynd/AP
Jody sagði AP fréttastofunni að aðstæðurnar væru vissulega undarlegar. Hún sagði að flestir ættu erfitt með að skilja þá staðreynd að systkinin væru í raun tvíburar.

En jafnvel þó að Reuben sé ungur að árum virðist hann vera meðvitaður um aðstæðurnar. Aðspurður um tilkomu systurinnar segir Reuben að hún hafi verið í frystikistunni síðustu ár - með frönsku kartöflunum og kjúklingnum.

Jody segir að börnin séu afar lík, bæði líkamlega og andlega. Hún sjái mikið af Reuben í Floren og getur ekki beðið eftir að sjá systkinin vaxa úr grasi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×