Erlent

Sjö ára stúlka fékk úttektarmiða í fitusog í skóinn

Mæðgurnar Poppy og Sarah Burge.
Mæðgurnar Poppy og Sarah Burge. mynd/closer magazine
Sjö ára gömul stúlka í Bretlandi fékk heldur óvanalega gjöf í skóinn um síðustu jól. Móðir hennar gaf henni úttektarmiða fyrir fitusog.

Móðir stúlkunnar, Sarah Burge, sagði tímaritinu Closer að dóttir sín hafi ítrekað beðið um gjöfina. Hún segir að gjöfin sé góð fjárfesting og líkir henni við skólasjóð dóttur sinnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Burge gefur dóttur sinni slíka gjöf en á síðasta ári fékk dóttir hennar úttektarmiða fyrir brjóstastækkun.

Burge hefur sjálf gengist undir lýtaaðgerðir og hefur lýst sér sem mennskri Barbie-dúkku. Í viðtali við Closer sagði Burge að margir hafi gagnrýnt hana fyrir gjafirnar. Hún segist gera sér grein fyrir því að þær séu umdeilanlegar en þvertekur fyrir að vera slæm móðir. Hún lýsir dóttur sinni sem fullkomlega eðlilegri stúlku og bendir á að hún megi ekki gangast undir aðgerðirnar fyrr en hún hefur náð 16 ára aldri.

Burge sagði að ungum stúlkum dreymir ekki lengur um að verða Mjallhvít eða Öskubuska.

Hin sjö ára gamla Poppy Burge er hæst ánægð með gjafirnar. Hún sagði Closer að hún vilji fá falleg brjóst eins og mamma sín.

Í umfjöllun fréttamiðilsins ABC News um málið segir Shari Miles-Cohen, talskona Sálfræðisamtaka Bandaríkjanna, að mikilvægt sé fyrir börn að vaxa ekki of hratt úr grasi. Hún bendir á að það sé nauðsynlegt fyrir börn að fá tíma til þroskast líkamlega og tilfinningalega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×